Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari
Nóatún 15
105 Reykjavík
s: 551 9257
s: 863 6805

Hlíf Sigur­jóns­dóttir fiðlu­leikari, dóttir Birgittu Spur safnstjóra og Sigurjóns Ólafssonar mynd­höggv­ara, er fædd í Kaup­manna­höfn, en ólst upp í Laugar­nesi í Reykja­vík. Fimm ára gömul hóf hún for­skóla­nám í Barna­músík­skólan­um í Reykja­vík og nam síðar á fiðlu við sama skóla hjá Gígju Jó­hanns­dótt­ur. Árið 1966 inn­rit­að­ist hún í Tón­listar­skól­ann í Reykja­vík og lærði hjá Birni Ólafs­syni kon­sert­meist­ara, uns hún lauk ein­leik­ara­prófi 1974. Vetur­inn eftir stund­aði hún einkanám hjá Birni og kenndi í Reykja­vík.

    Haustið 1975 hélt Hlíf vestur um haf til fram­halds­náms. Hún var tvo vetur við Tón­listar­há­skól­ann í Bloom­ing­ton í Ind­iana og aðra tvo vetur í Tor­onto í Kan­ada. Eftir það hlaut hún styrk til að dvelja tvo vet­ur við hið þekkta lista­setur í Banff í Kletta­fjöllum Kan­ada, en henni hafði áður hlotnast að vera styrk­þegi á sumar­nám­skeið­um þar. Kenn­ar­ar og leið­bein­endur Hlíf­ar voru úr hópi fær­ustu hljóð­færa­leik­ara og tón­listar­manna klass­ískr­ar tón­listar síð­ustu aldar t.d. Igor Oistrach, Ruggiero Ricci, Zoltan Szekely, Will­iam Prim­rose, Janos Starker, Gy­orgy Sebok, Men­achem Pressler, Franco Gulli og Lor­and Feny­ves. Hún lék með Kana­díska Strengja­kvart­ett­in­um sem sótti sumar­nám­skeið til Þýska­lands og Eng­lands, og lék m.a. í Wig­more Hall í Lond­on. Snemma árs 1999 fór hún í einka­tíma til fiðlu­leik­ar­ans Gerald Beal í New York borg og sótti tíma hjá honum í 3 ár, eða þar til hann féll frá vorið 2002. Sjálf­ur hafði Beal num­ið hjá fiðlu­snill­ingn­um Jascha Heifetz í sex ár.

    Að skóla­námi loknu 1981 kom hún heim og kenndi fiðlu­leik í tvo vetur við Tón­listar­skól­ann á Ísa­firði. Þá lagði hún aft­ur land undir fót og hélt nú til megin­lands Evrópu og var um skeið félagi í Mainz­er Kammer­or­chest­er í Þýs­kalandi og vet­ur­inn 1986−87 var hún fast­ráðin við Zürcher Kammerorchester í Sviss. Haust­ið 1987 kom hún heim og hefur búið hér síð­an, þó hún ferð­ist víða vegna at­vinnu sinn­ar. Hlíf hefur leikið með Sin­fóníu­hljóm­sveit Íslands, ým­ist sem fast­ráð­in, eða laus­ráðin, og var um tíma for­mað­ur starfs­manna­félags Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar­inn­ar.

    Hlíf kom fyrst opin­ber­lega fram ellefu ára göm­ul, er hún lék ein­leik með Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands á barna­tón­leik­um undir stjórn Igor Buke­toff. Hún hefur síð­ar komið fram á fjölda tón­leika, sem ein­leikari eða í smærri og stærri sveitum, hér­lendis sem er­lendis, til dæmis í Carnegie Weill Hall og Merkin Hall í New York.

    Árið 2008 gaf hún út tvöfaldan geisladisk með öllum partítum og sónötum J.S. Bach fyrir einleiksfiðlu, og sjö árum síðar endurútgaf bandaríska hljómplötuútgáfan MSRClassics þá diska. Þeir diskar hafa hlotið frábæra dóma.

    Haustið 2014 gaf MSR Classics út diskinn DIALOGUS, þar sem Hlíf flytur einleiksverk fyrir fiðlu, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Hefur sá diskur hlotið mjög góða umfjöllun og tilnefndi Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, diskinn sem geisladisk ársins 2015.

    Ásamt Hjörleifi Valssyni, og síðar Martin Frewer, myndar hún Duo Landon, en þau leika öll á fiðlur eftir fransk-bandaríska fiðlu- og bogasmiðinn Christophe Landon. Dúóið hefur gefið út tvo geisladiska, „44 dúó“ eftir Béla Bartók og Íslensk fiðludúó íslenska , eftir sex íslensk tónskáld og þar af voru þrjú verk samin sértaklega fyrir Duo Landon. Béla Bartók hafði verið náinn vinur og samstarfsmaður Zoltan Szekely, sem var einn af fjölmörgum ungversk-ættuðum kennurum Hlífar. Báðir diskarnir hafa hlotið afar loflega dóma gagnrýnenda.