Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari Nóatún 15 105 Reykjavík s: 551 9257 s: 863 6805 Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari, dóttir Birgittu Spur safnstjóra og Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara, er fædd í Kaupmannahöfn, en ólst upp í Laugarnesi í Reykjavík. Fimm ára gömul hóf hún forskólanám í Barnamúsíkskólanum í Reykjavík og nam síðar á fiðlu við sama skóla hjá Gígju Jóhannsdóttur. Árið 1966 innritaðist hún í Tónlistarskólann í Reykjavík og lærði hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara, uns hún lauk einleikaraprófi 1974. Veturinn eftir stundaði hún einkanám hjá Birni og kenndi í Reykjavík. Haustið 1975 hélt Hlíf vestur um haf til framhaldsnáms. Hún var tvo vetur við Tónlistarháskólann í Bloomington í Indiana og aðra tvo vetur í Toronto í Kanada. Eftir það hlaut hún styrk til að dvelja tvo vetur við hið þekkta listasetur í Banff í Klettafjöllum Kanada, en henni hafði áður hlotnast að vera styrkþegi á sumarnámskeiðum þar. Kennarar og leiðbeinendur Hlífar voru úr hópi færustu hljóðfæraleikara og tónlistarmanna klassískrar tónlistar síðustu aldar t.d. Igor Oistrach, Ruggiero Ricci, Zoltan Szekely, William Primrose, Janos Starker, Gyorgy Sebok, Menachem Pressler, Franco Gulli og Lorand Fenyves. Hún lék með Kanadíska Strengjakvartettinum sem sótti sumarnámskeið til Þýskalands og Englands, og lék m.a. í Wigmore Hall í London. Snemma árs 1999 fór hún í einkatíma til fiðluleikarans Gerald Beal í New York borg og sótti tíma hjá honum í 3 ár, eða þar til hann féll frá vorið 2002. Sjálfur hafði Beal numið hjá fiðlusnillingnum Jascha Heifetz í sex ár. Að skólanámi loknu 1981 kom hún heim og kenndi fiðluleik í tvo vetur við Tónlistarskólann á Ísafirði. Þá lagði hún aftur land undir fót og hélt nú til meginlands Evrópu og var um skeið félagi í Mainzer Kammerorchester í Þýskalandi og veturinn 1986−87 var hún fastráðin við Zürcher Kammerorchester í Sviss. Haustið 1987 kom hún heim og hefur búið hér síðan, þó hún ferðist víða vegna atvinnu sinnar. Hlíf hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, ýmist sem fastráðin, eða lausráðin, og var um tíma formaður starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hlíf kom fyrst opinberlega fram ellefu ára gömul, er hún lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á barnatónleikum undir stjórn Igor Buketoff. Hún hefur síðar komið fram á fjölda tónleika, sem einleikari eða í smærri og stærri sveitum, hérlendis sem erlendis, til dæmis í Carnegie Weill Hall og Merkin Hall í New York. Árið 2008 gaf hún út tvöfaldan geisladisk með öllum partítum og sónötum J.S. Bach fyrir einleiksfiðlu, og sjö árum síðar endurútgaf bandaríska hljómplötuútgáfan MSRClassics þá diska. Þeir diskar hafa hlotið frábæra dóma. Haustið 2014 gaf MSR Classics út diskinn DIALOGUS, þar sem Hlíf flytur einleiksverk fyrir fiðlu, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Hefur sá diskur hlotið mjög góða umfjöllun og tilnefndi Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, diskinn sem geisladisk ársins 2015. Ásamt Hjörleifi Valssyni, og síðar Martin Frewer, myndar hún Duo Landon, en þau leika öll á fiðlur eftir fransk-bandaríska fiðlu- og bogasmiðinn Christophe Landon. Dúóið hefur gefið út tvo geisladiska, 44 dúó eftir Béla Bartók og Íslensk fiðludúó íslenska , eftir sex íslensk tónskáld og þar af voru þrjú verk samin sértaklega fyrir Duo Landon. Béla Bartók hafði verið náinn vinur og samstarfsmaður Zoltan Szekely, sem var einn af fjölmörgum ungversk-ættuðum kennurum Hlífar. Báðir diskarnir hafa hlotið afar loflega dóma gagnrýnenda. |